Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Sýnileiki sálfræðilegra sjónarmiða

Höfundur: Hörður Þorgilsson

Sálfræðingar eru ekki hávær hópur, þeir eru ekki áberandi í opinberri umræðu og þeir reka ekki harða hagsmunapólitík. Þá eru þeir frekar sjaldséðir á pólitískum framboðslistum. Hins vegar er oft vísað í sálfræði og sálfræðinga og þá yfirleitt á frekar jákvæðan hátt eða af góðu tilefni. Svo virðist sem ímynd stéttarinnar sé jákvæð en um það höfum við samt enga haldgóða vitneskju. Ímynd ræðst af mörgu bæði því sem aðrir skapa en þó aðallega af okkar eigin verkum.

Um margra ára skeið hafa t.d. þýðendur erlends sjónvarpsefnis þýtt nánast öll starfsheiti þeirra sem komið hafa að ráðgjöf eða meðferð sem um sálfræðing væri að ræða. Fleira þarf þó til. Sálfræðin er traust fræðigrein þar sem við höfum tileinkað okkur flest af því sem telst bæði gott og gilt varðandi öflun og beitingu þekkingar. Við höfum flest lært að tala af yfirvegun og aðgreina okkur frá því sem telst ótraust og vafasamt. Þá verður að teljast að vel hafi tekist með sálfræðikennslu í Háskóla Íslands sem hefur eftir að framhaldsnám byrjaði þar haft enn ríkari áhrif en fyrr. Við höfum átt félagið okkar í yfir 50 ár og átt farsæla samleið með nágrannalöndum okkar. Stéttin hefur verið tiltölulega laus við vandræðagemlinga sem hefðu getað litað álit almennings. Við höfum  líka eignast í okkar hópi einstaklinga sem hafa náð töluverðri frægð og þó nokkrum vinsældum. Ekki má heldur gleyma því að sálfræðingar hafa verið nokkuð ötulir við skrif og útgáfu um margvísleg efni og þá gjarnan fyrir almenning

Allt hefur þetta gerst jafnt og þétt og án þess að fyrir hafi legið eitthvert allsherjar skipulag um kynningu eða sköpun ímyndar. Í sjálfu sér held ég að þetta sé gott og sé ekkert ósvipað og hjá einstaklingi sem kemst til sæmilegs þroska, telst vera góður og gegn þjóðfélagsþegn og getur verið bærilega sáttur við sjálfan sig. Ég held að nýliðnir atburðir kenni okkur að s.k. ímyndarsköpun skilar ekki endilega miklum trúverðugleika eða árangri þegar til lengdar lætur.

Mér hefur hins vegar oft fundist að það sem ég kalla rödd eða sjónarmið sálfræðinga hafi verið lítið sýnileg í opinberri umræðu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þann hóp sálfræðinga sem hafa verið valdir til forystu fyrir félagið. Hér er ég ekki að deila á þessa einstaklinga því þeir hafa allir sem einn staðið sig mjög vel. Ég held að ástæðurnar fyrir þessu gætu m.a. legið í því hvernig félagið okkar er bæði hugsað og rekið. Við kjósum okkur formann á tveggja ára fresti sem ásamt stjórn á að leggja línur fyrir hvernig á málum sálfræðinga er haldið. Stjórnin ræður síðan framkvæmdastjóra sem sinnir öllum þeim brýnu verkefnum sem bíða. Vandinn er af tvennum toga. Annars vegar er það að formenn hafa oftast lítið veganesti frá sálfræðingum um hvað helst beri að leggja áherslu á. Þeir kunna að hafa látið til leiðast að bjóða sig fram, kannski af félagslegri skyldurækni en vonandi í bland við persónulegan metnað. Það geta því verið er þeirra eigin skoðanir eða áherslur sem stýra því hvað er gert. Hinn vandinn er að formenn hafa hingað til ekki haft neinn tíma til þess að verða áberandi, verða virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni. Þeir eru að öllu jöfnu í fullri vinnu og bæta formennsku við þéttskipaða dagskrá.

Hér er úrbóta þörf. Fyrir það fyrsta þá held ég að formaður eigi að vera í fullu starfi við að vera talsmaður félagsins, kynna sálfræðileg sjónarmið, koma sér að í sem flestar nefndir og ráð, vera álitsgjafi og fulltrúi þeirra gilda sem flestir sálfræðingar geta verið einhuga um. Hann á að álykta og andmæla og hann á að gæta hagsmuna sálfræðinga af festu. Hann á að gegna lykilhlutverki í því að skapa stéttinni jákvæða, skýra og trausta ímynd. Félagið hefur notið starfskrafta frábærra framkvæmdastjóra en augljóslega hafa þeir ekki það umboð félagsmanna sem þarf til að koma fram af myndugleika fyrir hönd þeirra.

Hitt meginatriðið er að félagsmenn viti hvað þeir eru að kjósa þegar þeir kjósa sér formann. Það er svo sem ósköp heimilislegt að mæta á aðalfund og heyra frambjóðendur fara nokkrum almennum orðum um eigið ágæti en engan veginn ásættanlegt. Ekki er það skárra þegar engin kosning fer fram og væntanlegur formaður þarf ekki einu sinni að gera grein fyrir sér eða því sem hann stendur fyrir. Mín tillaga er sú að formannsefni geri grein fyrir stefnu sinni, áherslum, markmiðum, vinnulagi o.s.f.v. Það má vel hugsa sér að afstaða til nokkurra þekktra álitamála verði ljós.

Ég er ekki að halda því fram að það sé einfalt mál að vera í forsvari fyrir félag eða að það þurfi að skapa andstæðar fylkingar um mörg mál. Við eigum áfram að feta þá slóð að sinna störfum okkar vel og af ábyrgð, auka menntun okkar, sinna rannsóknum og skrifum og vera í virku samstarfi við erlenda sálfræðinga. Ég held hins vegar að það þurfi bæði að skerpa á því að sálfræðingar velji sér áherslur innan sín félags og að þessar áherslur verði sýnilegri. Ég legg þessar hugmyndir fram til umræðu.

Auglýsingar

2 responses to “Sýnileiki sálfræðilegra sjónarmiða

  1. Álfheiður Steinþórsdóttir 7.2.2009 kl. 11:40

    Þakka þér fyrir pistilinn Hörður, þetta eru orð í tíma töluð og sögð á yfirvegaðan hátt í stíl við þá þroskuðu sálfræðinga sem þú ert að lýsa. Það er áhugavert að velta fyrir sér af hverju sálfræðingar eru ekki að koma sér markvisst á framfæri í ráð og nefndir til að hafa áhrif. Ein gæti verið að þeir eru ekki svo flokkspólitískir að þeir verði valdir. Síðast þegar sálfræðingur var valinn í nefnd af heilbrigðisráðherra datt mörgum í hug að það væri vegna tengsla við Sjálfsstæðisflokkinn? Önnur gæti verið sú eins og þú nefnir að við erum að vinna svo langa vinnudaga að við treystum okkur ekki til að bæta við verkefnum. Gott að spá í þetta á okkar eigin vettvangi
    kveðja Álfheiður Steinþórsdóttir

  2. Guðrún Einarsdóttir 9.2.2009 kl. 08:33

    Heyr, heyr, Hörður. Takk fyrir þetta. Sálfræðin og sálfræðileg sjónarmið eru ennþá feimnismál ef til vill vegna þess að flestir halda að sálfræðin snúist eingöngu um skuggaverur sem leynast inn í höfðinu á fólki. Mörgum finnst ef til vill að þessi persónulegu ,,leyndarmál“ séu best geymd ,,innan höfuðs“ því að hleypa þeim út væri eins og að opna öskju Pandóru með viðeigandi afleiðingum. Sálfræðingar mega leggja meiri áherslu á að sálfræðin getur líka verið nytsamlegt sjónarhorn og tæki fyrir venjulegt fólk og umhverfið allt. Við þurfum að gera sálfræðina meira ,,ecological“, leggja áherslu á að hún nýtist í daglegu lífi og fara í sálfræðilega ,,útrás“. Hættum að vera svona innhverf.
    kveðja, Guðrún Einarsdóttir