Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Af ástandi

Höfundur: Jón Björnsson

Þann 23. janúar síðastliðinn skrifaði Pétur Gunnarsson, rithöfundur, í Morgunblaðið um nútímann og hraðann. Þar sagði hann þetta:

„Einu sinni voru það annálsritarar sem sögðu söguna og mælikvarðinn var eitt ár, svo fréttaritarar sem höfðu vikuna undir, loks útvarp sem gerði hvern dag að fréttaefni sem sjónvarpið brá upp í mynd. Og núna þegar netið hefur fært líðandi stund inn í fréttirnar, fréttast atburðirnir um leið og þeir gerast.“

Það borgar sig alltaf að lesa Pétur. Ef hann væri á hlutabréfamarkaði hefðu bréfin í honum örugglega hækkað síðan í haust. Auðvitað er ekki ónýtt að vera með nefið beinlínis ofan í mannkyns- og Íslandssögunni jafnóðum og hún gerist, en samt er það eins og annað sem maður hefur nefið ofan í, að mann vantar þá yfirsýnina, breiddina og samhengið. Reki maður nefið niður undir kjölinn á bók þá sér maður fáeina stafi óljóst, en veit ekkert endilega hvaða bók þetta er, um hvað hún er, hvernig hún byrjar né endar.

Það er ákaflega auðvelt að missa sjónar á samhenginu þessa dagana, þegar maður er límdur við æsandi og atburðarík augnablik og maríneraður í óstöðvandi túlkunum misviturra manna á þeim. Það er ekki bara hollt, heldur nauðsynlegt til að halda rósemdinni, að lyfta stundum nefinu upp úr atburðarásinni, draga djúpt andann og líta yfir sviðið allt; gærdaginn, árið, áratuginn, öldina, árþúsundið, landið, álfuna, heiminn og geiminn. Og sjá, þá rennur það upp fyrir manni að í stóra, stóra samhenginu hefur ekkert gerst sem skiptir mjög miklu máli, að það sem hefur gerst er ekki endilega svo bölvað og að sumu leytinu skárra en það hefði ekki gerst. Ég ætla í eftirfarandi að reyna að skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu.

Það kemur stundum fyrir og kannski oftar en maður heldur, að með því að tapa einhverju er maður einmitt að öðlast það, og eins hitt að þegar maður hefur náð góðu taki á einhverju tapast það endanlega. Þetta hljómar eins og öfugmæli eða vitleysa, en líka eins og einhver viska gæti verið á bak við það, sem kemur ekki á óvart, því sé kafað nógu djúpt bæði í visku og vitleysu, taka þær að líkjast hvor annarri æ meira. Það hlýtur að vera nokkuð mikilvægt innskot í umræðuna, mikilvægt líka fyrir sjálfsmyndina og efnahaginn einmitt núna, ef það er svo, að með því að tapa geti maður verið að græða og með því að græða sé maður kannski bara að tapa. Mig skortir rétta háskólagráðu til að sanna þessa staðhæfingu með bókhaldsgögnum og hagtölum, svo í staðinn ætla ég að segja sögu sem rennir undir hana rökum.

Sagan er eftir bandarískan mann sem hét William Sydney Porter. Hann kallaði sig O. Henry og var atgervismaður en alls ekki vammlaus og þurfti þess vegna að sitja um hríð í tugthúsi í Texas, í landi Bush þar sem menn kalla menn ekki allt ömmu sína. Tvennt heldur nafni þessa manns á lofti; annars vegar eru það einar fjögur hundruð smásögur sem hann samdi á öldinni sem leið, hinsvegar var hann maðurinn sem fann upp hugtakið “bananalýðveldi” – á frummálinu banana republic – , en það gerði hann eftir stutta dvöl í Honduras á flótta undan bandarísku réttvísinni.

Eina söguna sína kallaði hann Gjafir vitringanna. Hún fjallar alls ekki nema óbeint um vitringana Kaspar, Melkíor og Baltasar sem segir frá í jólaguðspjallinu, og oft er ruglað saman við ræningjana úr Kardemommubænum: Kasper, Jesper og Jónatan. Þvert á móti segir hún frá nýgiftu pari í lítilli og fremur ræksnislegri íbúð í New York; hann heitir James Dillingham Young og hún Della. Þau elskast heitt. James er 22 ára og vinnur fyrir heimilinu en það eru erfiðir tímar og vikukaupið hans var nýlega lækkað úr þrjátíu dollurum niður í tuttugu. Della er heimavinnandi sem merkir að hún kaupir efni í og eldar kvöldmat handa þeim báðum.

Við kynnumst þessu fólki á aðfangadag jóla og fyrst Dellu. Það er morgun, hún er heima og örvilnuð. Undanfarna mánuði hefur henni einungis tekist að klípa af matarpeningunum og stinga undan einum dollar og áttatíu og sjö sentum, en það er ekki nærri nóg fyrir þeirri jólagjöf sem hana hefur dreymt um að gefa sínum heittelskaða James. Einn dollar og áttatíu og sjö sent eru ekki upp í nös á ketti. Forget it, segir hún og hágrætur, svona getur fátæktin verið bitur. Þegar hér er komið í sögunni lætur O. Henry í ljós þá skoðun sína að lífið felist einkum í að snökta, sjúga upp í nefið og brosa, en af þessu þrennu sé lang algengast að fólk sjúgi upp í nefið.

Nú þarf að kynna til sögu tvenn verðmæti sem eru í eigu Dillingham-hjónanna þrátt fyrir örbirgð þeirra að öðru leyti. Í fyrsta lagi hefur Della forkunnarfagurt og sítt hár. Það er brúnt og svo sítt að það nær henni niður fyrir hnésbætur. Drottningin af Saba hefði öfundað Dellu af þessu hári og má ég skjóta því að hér, þó að O. Henry hafi ekki haft um það minnstu hugmynd, að hár Hallgerðar náði henni ekki niður á nafla þegar hún heillaði Gunnar einn sólardag á Þingvöllum forðum. Í öðru lagi á James Dillingham forláta vasaúr sem var ættargripur og sjálfur Salómon hefði ágirnst það þrátt fyrir auðlegð sína enda hafði engum svo mikið sem dottið vasaúr í hug á hans dögum.

Nú gerist það í sögunni að Della tekur ákvörðun; hún ætlar að kaupa almennilega jólagjöf handa James. Hún fer í kápuna og út og lætur ekki staðar numið fyrr en úti fyrir dyrum Madame Sofronie. Á skilti stendur að þar sé keypt og selt hár af öllum gerðum. Með þeim takast samningar um að Madame Sofronie greiði tuttugu dollara fyrir hárið, og frá henni fer Della þeim ríkari en hárinu fátækari. Vikum saman hafði hana dreymt um að gefa James verðuga festi fyrir vasaúrið; sú sem hann á er slitin og ómerkileg ef ekki beinlínis neyðarleg á annarri eins gersemi. Nú lætur hún þennan draum rætast og borgar tuttugu og einn dollar fyrir festina. Síðan fer hún heim og að reynir að láta einhverjar krullur tolla á hálfsnoðnu höfðinu á sér. Við sjálfa sig segir hún „Please God, make him think I am still pretty.“ Að svo búnu setur hún kótelettur á pönnu en í New York voru á þessum árum aldrei borðaðar rjúpur á jólunum.

James Dillingham Young, sem elskar Dellu ekki minna en hún hann, kemur nú heim úr vinnunni og bregður illa. Della hafði búist við reiði, furðu, vanþóknun, hryllingi en hún sér ekkert þessa í svip hans; hann þvert á móti glápir á hana eins og hálfviti og segir „Þú hefur klippt af þér hárið“, sem eiginlega þarf ekki að taka fram, svo áberandi sem það er. Því svarar Della og segir á þessa leið: „Elsku kallinn minn, ekki stara svona á mig. Ég seldi hárið, af því ég gat ekki hugsað mér annað en gefa þér almennilega jólagjöf.“ Svo segir hún að hárið vaxi hratt, sem er svokölluð hvít lygi, því hár þokast upp úr húðinni einhverja nanómetra á sólarhring og það mun ekki ná henni niður í hnésbætur aftur fyrr en eftir herrans mörg ár ef nokkurn tíma.

Nú er kontrapunktur í sögunni. „Klipping, hárþvottur, rakstur, það er ekki málið,“ segir James og réttir henni pakka og þegar hún hefur opnað hann forvitnum fingrum, þá liggja þar hárkambarnir dýrlegu sem hún oft og lengi hafði dáðst að í búðarglugga á Broadway. Eitt andartak gleðst hún yfir þessari yndislegu gjöf án þess að muna að hárið sem kambarnir áttu að sitja í er nú mestallt komið í eigu Madame Sofronie.

En sú bót er í máli að stundum er sælla að gefa en þiggja og það er hreint ekki ljóst hvort tárin í augnkrókum Dellu Dillingham Young eru beiskjutár eða gleðitár, þegar hún réttir James sína gjöf. Víst er samt að hún er hreykin af sjálfri sér og fórn sinni, þrátt fyrir að nú hafi komið á daginn að fórnin er enn stærri en hana grunar.

„Er þetta ekki dandy? “ spyr hún og fær honum úrfestina, og líklega væri illskást að þýða orðið dandy hér með „krúttlegt“ eða jafnvel „agalegt rassgat“. „ Er þetta ekki agalegt rassgat? Ég leitaði að því út um allan bæ. Þú verður að líta hundrað sinnum á úrið á dag til að monta þig“ segir hún.

Hér kemur annar kontrapunkturinn í þessari stuttu sögu, sem er vel af sér vikið af  höfundi, því auðvitað hafði James líka fært ástinni sína fórn og selt úrið góða til þess að eiga fyrir kömbunum. Festin er jafn úrlaus eins og kambarnir hárlausir.

Nú er ekki um margt annað að velja þetta jólakvöldið í Dillingham Young fjölskyldunni en snúa sér að kótelettunum sem höfðu marað í hvæsandi feitinni, og þeirri hamingju sem situr eftir þegar verðmætum þessa heims hefur verið fórnað fyrir ástina.

Það var svo ekki fyrr en löngu seinna sem Piet Hein orti vísuna um týnda hanskann sem er svona í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

Að týna hreinlega
hönskunum sínum
er heppni á móti því
að tapa öðrum
en henda hinum
og heimta þann týnda á ný.

Færum okkur nú frá New York heim til Íslands, frá 1920 til janúar 2009. Miklir hörmungatímar eru að baki. Við höfum gengið í gegnum mikið ólán, en sjáum fram á nýja og öðru vísi tíma. Við erum líkt og stödd í sporum manns sem vaknar upp af löngu fylliríi, þar sem hann blandaði saman koníaki, Zambuco, grænum Chartreuselíkjör og bjór, en hefur nú ásett sé að drekka aldrei framar og öll rök hníga að því að hann, nauðugur eða viljugur, verði að standa við það um hríð. Við erum hræðilega timbruð en ætlum í stúku. Þrátt fyrir hausverk og flökurð er það góð tilfinning.

Um árabil höfum við verið ánetjuð græðginni og elt leiðtoga í græðginni. Græðgin var ein dauðasyndanna sjö; sá sem ástundaði hana iðrunarlaust mátti ganga að því vísu að hann myndi kveljast í helvíti til eilífðar, og fyrir þá sem hafa gleymt því, þá er eilífðin ennþá lengri en þúsund ár sinnum allir droparnir í heimshöfunum; sem sagt firna löng. En græðgin er líka bagalegur löstur hérna megin grafar. Hún lætur menn gleyma mörkum sínum og graðka í sig meira af öllu en þeir geta notað og notið; á endanum spillir hún fyrir manni allri ánægju og nautn af því sem maður hefur, út af því hve hugfanginn hún gerir mann af hinu sem maður ennþá hefur ekki fengið. Þannig lætur græðgin mann einmitt tapa því öllu jafnóðum sem maður fær. Sagt er að nú séu tímar græðginnar að baki, við ætlum að verða nýtin og hófsöm og það er góð tilfinning, alveg einstök tilfinning.

Og við höfum líka um hríð verið haldin hroka og drambsemi, en vitrir menn sögðu áður að drambsemin væri verst allra ódyggðanna og móðir allra lasta. Við settum okkur sjálf ofar öllu og öllum, hlustuðum ekki á ráð viturra manna og velviljaðra greiningardeilda sem vildu leiðbeina okkur, heldur kölluðum þau heimskingja og rógbera. Hrokinn ruglaði í okkur skilningarvitin eins og hann gerir gjarnan, hann leiddi okkur út í ófærur af því við kusum að trúa því ekki sem við sáum og heyrðum heldur bara hinu sem við vildum sjá og heyra. Í þessu vorum við alveg ótrúlega dugleg og samhent, eins og við erum oft Íslendingar, það er bæði veikleiki okkar og styrkur.  Nú rönkum við við okkur langt út í keldu og þurfum að krafla okkur á þurrt, en við komumst alla veganna ekki lengra út í kelduna, þangað sem við hefðum sokkið upp fyrir haus, og þar erum við ákaflega heppin.

Við villtumst rétt einn ganginn á verðmætum. Við beindum orku okkar, tíma og lífi í eftirsókn eftir því sem nú hefur bókstaflega gufað upp eins og froðan ofan á kampavínsglasi. Af því orkan okkar, tíminn og lífið eru í vissum skilningi einnota, þá misstum við á meðan af ýmsu sem máli skiptir. Við vorum því eins og fólk sem ætlar sér að bíta fast í þeytirjóma en uppgötvar að það er með galtóman munninn. Nú vitum við betur og getum snúið okkur að þeim verðmætum sem ekki þarf að keppa um heldur bara keppa að, sem eyðast ekki endilega sé af þeim tekið heldur geta þvert á móti aukist við það. Þannig er til dæmis bæði um fegurðina, ástina, hina óbrigðulu nautn eyrnapinnans og fleira gott sem kostar ekkert. Lánsöm erum við að vera hætt að eltast við það sem ekkert var.

Við vorum orðin ósköp leiðinleg; yfirborðslegt fólk, frekt, snobbað, hégómlegt, montið, ekki nýríkt, heldur ofurnýríkt. Það fór ekki milli mála að Elton John hafði skömm á okkur, þegar hann kom að spila í afmælisveislunni forðum; það leynir sér ekki hve mörgum finnst það sem gerst hefur vera okkur mátulega í rass rekið. Jafnvel færeyski sendiherrann sagði í blaðaviðtali, að þó Færeyingar dái okkur og elski, þá hafi jafnvel þeim blöskrað hvernig við vorum orðin síðustu árin. Þegar Færeyingar hætta að vilja hafa okkur með á Ólafsvöku þá erum við á rangri leið, það vitum við núna og þar erum við heppin.

Um hríð höfum við haft yfir okkur og allt um kring stórasannleik markaðs- eða frjálshyggju, sem þykist öll vera fyrir frelsið en finnst jöfnuður beinlínist óæskilegur. Stórisannleikur er að því leytinu eins og moldrok að hann smeygir sér alls staðar inn, sest að í öllum vitum og stíflar þau. Það hefur ekki þurft að ræða nema um fáa hluti undanfarin ár og enga mikilvæga, því lögmál markaðarins eru jafn ómótmælanleg eins og það er dónalegt að vera á móti arðseminni. Þegar stórisannleikur er ekki bara í kringum mann eins og þétt þoka, heldur hefur líka smogið um augun og eyrun inn í sjálfan mann, þá sér maður engan tilgang í því lengur að fást við spurningar, af því það er búið að svara þeim öllum í eitt skipti fyrir öll, líka þeim sem ekki er hægt að svara. En nú hefur hvesst og þokan hefur fokið undan blæstrinum og þá kemur í ljós að það er fjöldinn allur af – ekki bara ósvöruðum heldur líka – áríðandi, ögrandi og skemmtilegum spurningum allt í kringum okkur svo nú verður gaman.

Vikum saman hafa verið uppi háværar raddir, t.d. niðri á Austurvelli, sem segja að fáeinir menn hafi brugðist okkur hinum; þeir eigi sökina, við séum saklausu fórnarlömbin. Svipað heyrum við stjórnmálamenn gera, bankamenn og fyrrverandi fjárfesta; þeir benda allir á einhverja aðra og meðan við hlustum á þá gera það, þá grunar okkur innst inni að þeir muni aldrei læra neitt. Sá sem getur ekki eða þorir ekki að kannast við mistök sín mun sennilega endurtaka þau. Þó það sé bæði illt afspurnar og ömurlegt að rifja það upp, þá vorum við öll alveg ótrúlega leiðitöm og fylgispök þeim sem við gagnrýnum nú mest, meðan þeim vegnaði vel og molar hrutu frá þeim til okkar hinna. Við létum þetta allt líðast; við kusum svona þing, við studdum þessa flokka, við létum okkur þá lynda átölulaust sem sátu í Seðlabankanum; við vissum um siðleysi, lausatök, spillingu en mættum ekki niður á Austurvöll fyrr hlutabréfin okkar hrundu og spariféð brann. Það voru eiginlega engir „þeir“ sem settu okkur á rassgatið, það vorum eiginlega við öll. Það er einfaldlega ekki svo að við skiptumst í stóran saklausan meirihluta og fámennan sekan minnihluta. En nú ætlum við að vera heiðarleg og horfast í augu við staðreyndir – horfast jafnvel í augu við okkur sjálf, sem getum jafnvel verið ljótari en staðreyndir – en einmitt það gefur okkur alla vega færi á að verða vandaðra fólk hér eftir en hingað til, sem er frábært, því það er einmitt það sem við öll viljum og ætlum að verða.

Ég ætla ekki að gera lítið úr erfiðleikunum sem bíða margra. En þetta er eins og með aðrar villur og ófarir, að það er betra að bjargast seint en aldrei. Og við skulum ekki vera svo skyni skroppin að gleyma að gleðjast yfir björguninni þó sein sé. Undanfarið höfum við verið á þannig ferðalagi að það er í öllum skilningi meira gleðiefni að því sé lokið en að að það hefði haldið áfram; hreint ekki bara siðferðilega heldur og ekki síður efnahagslega.

Dýrir skólar eru oft góðir skólar, þess vegna eru þeir dýrir. Við höfum verið í afar dýrum skóla, en við komum út úr honum vel menntuð og það er gott.

Og nú ætla ég að snúa aftur að staðhæfingunni um að stundum töpum  við því sem við fáum, en fáum það sem við töpum. Í fyrstu Mósebók (Mós I:19) segir frá ansi glúrnum skilmála sem Guð setti þeim Adam og Evu þegar hann afhenti mannkyninu heiminn til ábúðar. Hann var vitaskuld fremur ergilegur út í þau fyrir óhlýðnina, vildi ekkert vera að mylja undir mannkynið og sagði: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns…“. Það þarf ekki guðfræðing til að skilja að hann meinti tvennt með þessu. Í fyrsta lagi meinti hann hið augljósa; að það er ekki fyrirhafnarlaust að lifa á jörðinni, það kostar blóð, svita og tár, og það er að því leytinu allt öðru vísi heldur en  þessi meinlausi og meiningarlausi doði sem verið hafði í Edensgarðinum – og reyndar líka á uppgangstímunum undanfarið.

Hins vegar meinti hann, og það er alveg hárrétt hjá honum, að brauð sem menn neyta ekki í sveita síns andlitis er andskotann ekkert brauð. Svitinn er það álegg sem gerir brauð að raunverulegu brauði. Ekkert verðmæti fæst fyrirhafnarlaust, og það sem fæst fyrirhafnarlaust er einskis virði. Það var ákveðið strax í Eden og var fyrsta ákvörðunin sem var tekin um örlög okkar mannanna. Þess vegna vorum við Íslendingar eiginlega ekki að tapa öllu því sem okkur sýnist á haustdögunum 2008, heldur þvert á móti að græða eða að minnsta kosti að finna það aftur sem við höfðum týnt. Það gat verið miklu verra.

Auglýsingar

4 responses to “Af ástandi

 1. Halla Þorvaldsdóttir 2.2.2009 kl. 11:41

  Frábært framtak og sömuleiðis frábær pistill Jóns.

 2. Már Viðar Másson 2.2.2009 kl. 17:18

  Alldeilis stórkostlegt. Við getum litið t.d. á kirkjan.is eða doktor.is eftir fyrirmynd. Allt í lagi að hafa e-a 30, en síðan þarf að vera opin öllum sálfræðingum. Þó finnst mér í lagi að henni sé ritstýrt, svona í neyðartilvikum.
  Kveðja,
  Már Viðar Másson

 3. Margrét Bárðardóttir 6.2.2009 kl. 09:09

  Mikið var gott að lesa þetta úr „hinni greiningardeildinni“ svona í morgunsárið.
  Þetta með eyrnapinnann, er þér svo sammála…
  ég þakka almættinu í hvert skipti. Reyndar hef ég heyrt að þetta megi aðeins gera á jólum og páskum en ég stelst oftar í þetta, kemur nautnin kannski þaðan??

 4. Ingibjörg Sverrisdóttir 6.2.2009 kl. 11:39

  Takk fyrir að senda krækjuna til sálfræðinema.

  Takk fyrir Jón, að pikka með eyrnapinnanum í nefið á okkur og draga það upp úr klippimyndasafninu og smáskilaboðunum.